Header Paragraph

Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands 2022 komin út

Image
Sjálfbærniskýrsla

Sjálfbærniskýrsla Háskóla Íslands fyrir árið 2022 er nú aðgengileg. Þetta er í annað skipti sem HÍ gefur út slíka skýrslu og undirstrikar útgáfa hennar áherslur háskólans í að vera leiðandi á sviði sjálfbærni, en háskólastofnanir leika lykilhlutverk í að leiða mjög svo þarfar samfélagsbreytingar. HÍ hefur þess vegna innleitt heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í stefnu sína fyrir 2021–2026 (HÍ26), þar sem sjálfbærni og fjölbreytileiki er ein af grunnstoðum stefnunnar.

Sjálfbærniskýrslan veitir innsýn í þau fjölmörgu verkefni sem unnin eru í HÍ og tengjast heimsmarkmiðunum. Tilgangur hennar er að stuðla að áframhaldandi vinnu við sjálfbærni innan HÍ, gera góðan háskóla enn betri þegar kemur að því að takast á við hnattrænar áskoranir og skapa sjálfbærari framtíð.

Þess að auki er mikill þrýstingur á háskóla á alþjóðavísu að gera grein fyrir, með mælanlegum hætti, hvernig starf skólans styður við sjálfbærni og eru úttektir á þessu meðal annars notaðar við röðun háskóla á alþjóðlegum matslistum. Þess má geta að skýrsla síðasta árs varð til þess að HÍ hækkaði umtalsvert á lista THE yfir háskóla með mest samfélagsleg áhrif.

Ýmsar breytingar hafa verið gerðar frá síðustu skýrslu. Tekin voru viðtöl við starfsfólk og nemendur háskólans sem vinna að verkefnum sem tengjast heimsmarkmiðunum með einum eða öðrum hætti. Þetta var gert til að veita betri innsýn í viðamikið starf skólans á sviði allra heimsmarkmiða. Auk þess eru ávörp frá öllum fræðasviðsforsetum þar sem þeir greina frá starfsemi á sínu sviði sem tengist sjálfbærni. Forseti Stúdentaráðs HÍ er einnig með ávarp í skýrslunni en stúdentar hafa mikilvæga rödd, bæði innan og utan HÍ, þegar kemur að sjálfbærni og framvindu heimsmarkmiðanna. Loks greinir ný skýrsla frá stöðu þeirra tillagna til úrbóta sem lagðar voru fram í síðustu skýrslu.

Sjálfbærniskýrslan var unnin af Sjálfbærnistofnun HÍ að beiðni sjálfbærninefndar. Sjálfbærnistofnun heldur Hátíð sjálfbærni þann 6. desember þar sem útgáfu nýrrar sjálfbærniskýrslu verður meðal annars fagnað.

Skýrsluna í heild sinni má nú finna á vef HÍ.