Header Paragraph

Opnunarviðburður: Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni 23. febrúar

Image
Plöntuveggur í Grósku

Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni verður haldin út árið 2023. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og sérstöðu náttúru Íslands. Fyrirkomulagið verður röð viðburða sem með einum eða öðrum hætti vekur athygli á hinum ýmsu þáttum náttúrunnar, ekki hvað síst til að draga fram sérstöðu náttúru Íslands og þær áskoranir sem líffræðileg fjölbreytni stendur frammi fyrir hér á landi.

Opnunarviðburður hátíðarinnar fer fram þann 23. febrúar 2023 kl 14-16 í Safnahúsinu við Hverfisgötu í Reykjavík. Á viðburðinum verður samráðsvettvangurinn BIODICE kynntur sem og ný heimasíða félagsins. Farið verður yfir niðurstöður leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, COP15, sem fram fór í Montreal í Kanada desember síðastliðnum og hvað þær þýða fyrir Ísland.

Að dagskrá lokinni verður boðið uppá kaffi og gestir geta skoðað sýninguna Viðnám sem Listasafn Íslands stendur fyrir í Safnahúsinu. Á þeirri sýningu er meðal annars fjallað um líffræðilega fjölbreytni og náttúru Íslands í gegnum myndlist.

Fyrir hátíðinni standa BIODICE með aðkomu ýmissa stofnana enda í anda BIODICE að vinna þvert á stofnanir og málefnið snertir öll þau er starfa að málefnum náttúrunnar.

Sjá nánar á Facebookviðburði opnunarhátíðarinnar