Hver var Sæmundur fróði?

Sæmundur fróði Sigfússon (1056 – 22. maí 1133) var einn helsti fræðimaður sinnar tíðar og sennilega fyrsti Íslendingur sem sótti sér menntun erlendis. Hann dvaldi  langdvölum ytra, að sögn við Svartaskóla. Mönnum ber ekki saman um hvar sá skóli var, í norðurhluta Frakklands eða í Þýskalandi, en víst er að hann nam ekki við Sorbonne í París, því sá skóli var ekki til á þessum tíma.

Eftir heimkomuna settist Sæmundur að í Odda á Rangárvöllum, vígðist til prests og lét reisa þar kirkju helgaða heilögum Nikulási. Hann hélt skóla í Odda og stundaði fræðistörf og skriftir. Ritverk hans hafa glatast í tímans rás, en vitað er að hann var meðal ritbeiðenda að Íslendingabók Ara fróða og bar Ari bókina undir hann meðan hún var í smíðum. Höfundar annarra meginverka vitna líka til Sæmundar fróða. Hann var goðorðsmaður og tók virkan þátt í endurbótum laga og réttar. 

Menn töldu þekkingu og fróðleik Sæmundar ekki einleikin, og komust sögur á kreik um að hann væri fjölkunnugur og nyti fulltingis kölska við iðju sína. Fjöldi sagna hefur sprottið upp um viðskipti þeirra Sæmundar, sem hafa átt ríkan þátt í að halda nafni hans á lofti gegnum tíðina.

Sæmundur sleppur úr klóm skólameistarans

Einu sinni voru þrír Íslendingar í Svartaskóla: Sæmundur fróði, Kálfur Árnason og Hálfdán Eldjárnsson eða Einarsson, sem seinna varð prestur að Felli í Sléttuhlíð. Þeir áttu allir að fara burtu í einu, og bauðst þá Sæmundur til að ganga seinastur út. Urðu hinir því fegnir.

Sæmundur varpaði þá yfir sig kápu stórri og hafði ermarnar lausar og engan hnapp hnepptan. En rið var upp að ganga úr skólahúsinu. Þegar nú Sæmundur kemur á riðið, þrífur Kölsi í kápu hans og segir: „Þig á ég.“

Varpaði þá Sæmundur af sér kápunni og hljóp út. Hélt Kölski kápunni einni eftir. En járnhurðin rumdi á hjörum og skall svo fast aftur á hæla Sæmundi, að hælbeinin særðust. Þá sagði hann: „Skall þar hurð nærri hælum,“ og er það síðan orðið að máltæki. Þannig komst Sæmundur fróði burt úr Svartaskóla með félögum sínum. 

Sæmundur og selurinn 

Þegar þeir Sæmundur, Kálfur og Hálfdán komu úr Svartaskóla, var Oddinn laus, og báðu þeir þá allir kónginn að veita sér hann. Kóngurinn vissi dável, við hverja hann átti, og segir, að sá þeirra skuli hafa Oddann, sem fljótastur verði að komast þangað.

Fer þá Sæmundur undir eins og kallar á kölska og segir „Syntu nú með mig til Íslands, og ef þú kemur mér þar á land án þess að væta kjóllafið mitt í sjónum, þá máttu eiga mig.“

Kölski gekk að þessu, brá sér í selslíki og fór með Sæmund á bakinu. En á leiðinni var Sæmundur alltaf að lesa í Saltaranum.

Voru þeir eftir lítinn tíma komnir undir land á Íslandi. Þá slær Sæmundur Saltaranum í hausinn á selnum, svo hann sökk, en Sæmundur fór í kaf og synti til lands. Með þessi varð kölski af kaupinu; en Sæmundur fékk Oddann. 

Göldrótta griðkonan í Odda

Einu sinn átti Sæmundur fróði mikið af þurri töðu undir, en rigningarlega leit út. Hann biður því allt heimafólk sitt að reyna að ná heyinu saman undan rigningunni.

Kerling ein var hjá honum í Odda, mjög gömul, er Þórhildur hét; prestur gengur til hennar og biður hana að reyna að haltra út á túnið og raka þar dreifar. Hún segist skuli reyna það, tekur hrífu og bindur á hrífuskaftsendann hettu þá, sem hún var vön að hafa á höfðinu, og skjöktir svo út á túnið. Áður en hún fór, segir hún við Sæmund prest, að hann skuli vera í garðinum og taka á móti heyinu, því vinnumennirnir verði ekki svo lengi að binda og bera heim. Prestur segist skuli fylgja ráðum hennar í því, enda muni þá best fara.

Þegar kerlingin kemur út á túnið, rekur hún hrífuendann undir hverja sátu, sem sætt var, og segir: „Upp í garð til Sæmundar.“ Það varð að áhrínsorðum, því hver baggi, sem kerling renndi hrífuskaftinu undir með þessum ummælum, hvarf jafnóðum heim í garð.

Sæmundur segir þá við kölska og ára hans, að nú sé þörf að duga að hlaða úr. Að skömmum tíma liðnum var allt heyið komið í garð undan rigningunni.

Á eftir sagði Sæmundur við kerlingu: „Eitthvað kannt þú, Þórhildur mín.“

Hún segir: „Það er nú lítið orðið og mestallt gleymt, sem ég kunni í ungdæmi mínu.“

Leiðarlok

Sæmundur andaðist 1133, en með hverjum atburðum höfum vér eigi heyrt; þó segja menn, að hann þrídagaður hafi úr líkrekkjunni risið og þá kveðið þá drápu, er hans Ljóða-Eddu er vön að fylgja og kallast Sólarljóð.

Hann er grafinn í Sancti Nicholai kirkju að Odda á Rangárvöllum, norðvestur frá kyrkjudyrum utarlega. Steinn er yfir leiðinu af óhöggnu grjóti, nú mjög jarðsiginn; á honum hefur lengi sú trú verið (þó nú fyrnist), að veikir menn hafi á honum vakað á náttarþeli og svo burtu gengið horfnir krankleika síns, einkum þeir, sem heimakomu hafa haft.