Um stofnunina

Sjálfbærnistofnun Háskóla Íslands, þá Stofnun Sæmundar fróða, tók til starfa í júní 2006 og er rannsókna- og þjónustustofnun á sviði sjálfbærrar þróunar.

Sjálfbærnistofnun er ætlað að búa yfir öflugu og eftirsóknarverðu stoðkerfi rannsókna og þróunar á sviði sjálfbærni með víðtæka yfirsýn og tengsl sem styður við þverfaglega rannsóknarvinnu innan og utan HÍ. Stofnunin er vettvangur fyrir rannsóknir háskólakennara, sérfræðinga og framhaldsnema á sviði sjálfbærrar þróunar og leitast við að efla slíkar rannsóknir við HÍ, m.a. með samvinnu við deildir og aðrar stofnanir háskólans.

Sjálfbærnistofnun er samstarfsvettvangur við aðila utan háskólans, svo sem stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Auk þess stendur stofnunin fyrir málþingum og fyrirlestrum, veitir sérfræðiaðstoð, ráðgjöf og annast fræðslustarfsemi á sviði sjálfbærrar þróunar.

Sjálfbærnistofnun heyrir undir öll svið Háskóla Íslands sameiginlega, og tilnefna forsetar allra sviða fulltrúa í stjórn stofnunarinnar. Stofnunin er vistuð hjá Félagsvísindasviði.

Reglur fyrir stofnunina voru samþykktar 15. júní 2010.

Hlutverk stofnunarinnar er að vera vettvangur sjálfbærnirannsókna háskólakennara, sér­fræð­inga og framhaldsnema, sérstaklega í tengslum við þverfræðilegt meistara- og doktors­nám í umhverfis- og auðlindafræði. Stofnunin skal leitast við að efla rannsóknir á sviði sjálfbærni við Háskóla Íslands, m.a. með samvinnu við deildir og aðrar stofnanir háskólans. Hlutverk stofnunarinnar er einnig að vera vettvangur þróunar á sviði sjálfbærni, með yfirsýn, tengsl og sérþekkingu sem styðja við þverfræðilegar rann­sóknir, miðlun og ráðgjöf innan og utan háskólans, svo sem fyrir stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.

Enn fremur skal stofnunin eftir föngum:

  • taka virkan þátt í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi,
  • veita kennurum og framhaldsnemum sem vinna á áherslusviðum stofnunarinnar rannsóknaraðstöðu á sviðum stofnunarinnar, 
  • veita sérfræðiaðstoð, ráðgjöf og annast fræðslustarfsemi, en þessi verkefni eru unnin gegn greiðslu eftir því sem við á, 
  • styrkja tengsl Háskóla Íslands við atvinnu- og þjóðlíf á áherslusviðum stofnunarinnar,
  • stuðla að hagnýtingu nýjunga á áherslusviðum stofnunarinnar.