Sæmundarstund 20. mars 2012

Vésteinn Ólason prófessor emeritus. Ávarp á Sæmundarstund við Háskóla Íslands 20. mars 2012

Fyrir jólin kom út bók eftir Pál Björnsson sagnfræðing um Jón Sigurðsson, þær hugmyndir um Jón sem hafa þróast eftir dauða hans og hvernig hann hefur orðið táknmynd í hugum okkar Íslendinga.

Þótt táknmyndir eigi sér raunverulegar fyrirmyndir fá þær sjálfstætt líf óháð fyrirmyndinni, lifa áfram og hafa áhrif í huga fólks. Það eru ekki margir Íslendingar sem hafa fengið slíka stöðu hjá þjóðinni. Jónas Hallgrímsson og Jóhannes Kjarval eru líka táknmyndir. Sumar hetjur Íslendingasagna haf orðið táknmyndir, en óvíst er að nokkur þeirra jafnist að tákngildi við Sæmund fróða. Berum hann saman við samtímanninn Ara fróða. Þeir voru fyrstu nafngreindu rithöfundar okkar. Við eigum enn rit eftir Ara, en ekkert eftir Sæmund nema stuttar tilvitnanir. En andstætt Ara hefur Sæmundur mjög snemma fengið líf í vitund þjóðarinnar, orðið táknmynd sem lifir og minnir okkur sífellt á gildi þekkingarleitarinnar og gildi þess að láta þekkinguna færa sér frelsi og hugrekki til athafna.

Saga Sæmundar í vitund þjóðarinnar er löng. Etv. hefur táknmyndin byrjað að verða til fyrir dauða hans 1133. Sögur skráðar á 13. og 14. öld segja frá táknmyndinni. Og hún lifir áfram í þjóðsögum og listum fram á okkar daga.

Í sögu Jóns Ögmundarsonar hins helga, Hólabiskups, kemur fram að Sæmundur var lengi við nám erlendis og var týndur löndum sínum, jafnvel sjálfum sér. En sagan telur það gæfu Jóns, að hann „spandi út hingað með sér Sæmund Sigfússon, þann mann er einn hverr hefir enn verið mestur nytjamaður guðs kristni á þessu landi og hafði verið lengi utan svo að ekki spurðist til hans. Enn hinn helgi Jón fékk hann upp spurðan og hafði hann sunnan með sér, og fóru þeir báðir saman sunnan út hingað til frænda sinna og fósturjarðar.“

Í Sæmundar þætti, sem er saminn eitthvað seinna en sagan, er þessu bætt við:

„hinn heilagi Jón gat hann upp spurðan að hann var þar með nokkurum ágætum meistara, nemandi þar ókunniga fræði, svá at hann týndi allri þeirri er hann hafði á æskualdri numið og jafnvel skírnarnafni sínu.“ Meginefni sögunnar er að Sæmundur þarf að „stinga af“ frá meistaranum, eins og sagt er á nútímamáli, og til þess að komast alla leið til Íslands þarf hann hvað eftir annað að sýna að hann standi meistaranum á sporði í stjörnuspeki og fjölkynngi. Í þættinum er ekki sagt að þessi meistari hafi verið kölski sjálfur, þótt máttugur væri, en hér eru rætur þjóðsögunnar um Sæmund á selnum.

Í þjóðsögum Jóns Árnasonar sjáum við að sögur af Sæmundi lifðu góðu lífi á vörum þjóðarinnar, bæði á sautjándu og nítjándu öld. Fólk hefur geymt þær í minni, sagt þær og endurskapað kynslóð fram af kynslóð. Þetta eru sögur af táknmyndinni Sæmundi fróða, og þið þekkið margar þeirra. Þekkingin gerir Sæmundi kleift að sigrast á hverri þraut, jafnvel hinum illa sjálfum.

Sæmi fróði hann situr í frans
í svartaskóla og rembist við
að rísa undir nafni
hann rýnir svo stíft
í rúnir að gleymt er honum sjálft nafnið ...

Þannig orti skáldið Megas um síra Sæma á öldinni sem leið. Á skífu sem hann gerði í samvinnu við Spilverk þjóðanna kveður hann um fjórar táknmyndir: Síra Sæma, Jón Sigurðsson – eða Sívertsen eins og Megas syngur og oft var skrifað á 19. öld — um Jónas Hallgrímsson og svo einn útlending, vel þekktan hér á landi í æsku Megasar og minni: Tarzan.

Það er þjóðin sem hefur gert Sæmund fróða að táknmynd og gefið honum þetta langa líf. Þjóðsagan og táknmyndin eru ekki vísindi en geyma þó sannleik sem vísindamenn og aðrir ættu að hafa hugfastan: Þekkingin er hnoss sem menn leggja mikið í sölurnar til að öðlast. Þekkingin gerir menn færa um að hafa betri stjórn á lífi sínu og annarra, gerir þá frjálsa. En þá þurfa þeir að þekkja sjálfa sig. Og til þess að þeir sem þekkinguna hafa misbeiti henni ekki þarf hún að ná til sem flestra.

Sögurnar af Sæmundi kenna okkur að menn geta lokast inni í lærdómnum og týnt sjálfum sér. Þá er gott að eiga rætur, eiga vini og frændur sem koma og minna menn á hverjir þeir eru, spenja þá heim — til góðra verka. Þekkingin á að koma að gagni, en hún getur komið að gagni með mörgu og ófyrirsjáanlegu móti, eins og þjóðsögurnar um Sæmund fróða sýna.

Ef það er rétt að Jón Ögmundarson hafi í raun og veru sótt Sæmund Sigfússon frá Odda suður í lönd og fylgt honum heim, var það sannarlega nytjaverk. Lærdómurinn sem Sæmundur og fleiri ágætismenn á fyrstu öldum kristni komu með að sunnan til Íslands frjóvgaði menninguna sem fyrir var með þeim hætti að hún lifði af erfiða tíma og blómgast nú í fjölþættum samskiptum við menningu annarra þjóða. Það er ekki ofmælt að slíkir menn hafi verið nytjamenn, og við stöndum í þakkarskuld við þá enn í dag.

En hver er kjarninn í táknmyndinni sem þjóðin hefur búið til af Sæmundi fróða? Hvert er varanlegt gildi hennar? Hvað táknar myndin af Sæmundi á selnum?

Kölski er tákmynd hins illa — en hið illa getur tekið á sig fallegt og sakleysislegt gervi, gervi selsins í sögunni og höggmynd Ásmundar Sveinssonar.

Það er mikið illt til í veröldinni, og máttugast er það þegar það hefur þekkinguna að vopni.

En í viðureignum sínum við kölska sýnir Sæmundur að með þekkingunni er hægt að sigrast á hinu illa. Þess vegna er gott að hafa höggmyndina hans Ásmundar hér fyrir framan aðalbyggingu Háskóla Íslands.