Header Paragraph

Sjálfbær samruni - samtal lista og vísinda um sjálfbærni

Image

Sjálfbær samruni - samtal lista og vísinda um sjálfbærni

Stofnun Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands og Norræna húsið bjóða upp á viðburðaröðina Sjálfbær samruni - samtal lista og vísinda í október og nóvember. Fólk úr skapandi greinum og vísindasamfélaginu kemur saman til að ræða hvernig listir og vísindi geta unnið saman að sjálfbærri framtíð. 

Markmiðið með viðburðaröðinni er að efla samtal milli lista og vísinda og stuðla að aukinni þekkingu og samstarfi um sjálfbæra þróun þvert á geira samfélagsins. Með viðburðaröðinni vilja Stofnun Sæmundar fróða og Norræna húsið vekja athygli almennings á mikilvægi sjálfbærrar þróunar, ekki síst nú í kringum loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP26) sem hefst í Glasgow 31. október næstkomandi.

Listgreinar eru áhrifavaldar í samfélaginu og sinna mikilvægu hlutverki þegar kemur að miðlun  hugmyndafræði og þekkingar. Auk þess eru þær drífandi afl í öllum stórum samfélagslegum og menningarlegum umskiptum og vitundarvakningu. Það er því mikilvægt að opið og frjótt samtal eigi sér stað á milli þessara ólíku geira, lista og vísinda, og að þeir styðji við hvorn annan þegar kemur að því að skiptast á hugmyndum, miðla upplýsingum og leita skapandi lausna.

Á fyrsta viðburðinum verður fjallað um miðlun þekkingar á sviði sjálfbærni út frá mismunandi sjónarhornum. Eru tilfinningar þekking? Skiptir máli að miðla þeirri þekkingu? Hljómsveitin Ateria verður með tónlistaratriði í samtali við heimspekinginn Ólaf Pál Jónsson en hljómsveitin hefur einmitt gert þessar stóru áskoranir, loftslagsmálin, að viðfangsefni texta sinna. Ateria gaf í síðustu viku út plötuna Andvari við góðar undirtektir hérlendis sem erlendis. Einnig munu Unnur Björnsdóttir og Ida Karólína Harris segja frá verkefninu Listrænt ákall til náttúrunnar auk þess sem Skúli Skúlason líffræðingur mun halda erindi.

Eftir viðburðinn verður boðið upp á veitingar frá Sónó auk þess sem opið verður á myndlistarsýninguna Time Matter Remains Trouble í Hvelfingu Norræna hússins fram eftir kvöldi og er tilvalið fyrir gesti að skoða hana en hún fjallar um samspil manns og náttúru. Boðið verður upp á leiðsögn um sýninguna kl. 18.30.