Sannprófun á skilyrðum Skipulagsstofnunar

Sannprófun á skilyrðum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis 2000-2006

Sannprófun umhverfismats er viðurkennd aðferð til þess að komast að raunverulegum áhrifum framkvæmdar eftir að leyfi fyrir framkvæmd hefur verið gefið út og framkvæmdir hafa hafist. Sannprófun veitir grundvallarupplýsingar um hvort spár og mótvægisaðgerðir hafi gengið eftir og skilyrði verið virt, hvort þau hafi skilað árangri í samræmi við markmið mats á umhverfisáhrifum og hvort tekist hafi að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum.

Markmið verkefnisins voru

1) að kanna hvort og hvernig skilyrðum í úrskurðum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda á árunum 2000-2006 hafi verið framfylgt.

2) að kortleggja og greina samráð milli framkvæmdaraðila og annarra aðila sem tilgreindir voru í skilyrðum og hvort skilyrðin hafi skilað tilætluðum ávinningi. Gögnum var safnað með því að leggja staðlaðan spurningalista um hvert skilyrði fyrir framkvæmdar- og samráðsaðila vegna framkvæmda á tímabilinu sem voru háðar skilyrðum og ráðist hafði verið í.

Framkvæmdaraðilar uppfylltu stærstan hluta skilyrða (84%). Árangur af því að uppfylla skilyrði var einungis metinn í 29% tilfella. Samkvæmt framkvæmdaraðila hafði samráð um tiltekið skilyrði átt sér stað í 79% tilvika, en samkvæmt samráðsaðilum í 58% tilvika. Flokkun leiða við uppfyllingu skilyrða leiddi í ljós að samráð, tæknilegar lausnir og grunnrannsóknir voru oftast notaðar.

Niðurstöðurnar sýndu að framkvæmdaraðilar ráðast í að uppfylla talsvert stóran hluta skilyrða, en árangursmat þ.e. hvort uppfylling skilyrðis hafi skilað tilætluðum ávinningi má greinilega bæta og hlutverk samráðsaðila verður að skilgreina betur. Nú þegar skilyrði eru ekki lengur sett fyrir framkvæmdum er e.t.v. enn meiri óvissa um hvort eftirfylgni sé með framkvæmdum.

Þar sem framkvæmdaraðilar framfylgdu skilyrðum í flestum tilvikum má áætla að skilyrði séu góð aðferð til að sjá til þess að t.d. vöktun, eftirlit, mótvægisaðgerðir, samráð o.fl. sé framkvæmt eftir að framkvæmdarleyfið er gefið út. Ef niðurstöður sannprófunar umhverfismats væru aðgengilegar fyrir almenning og fagfólk gæti skapast meiri sátt meðal þeirra um framkvæmdir.

Katrín Sóley Bjarnadóttir vann rannsóknina til meistaraprófs í umhverfis-  og auðlindafræðum, sem hún lauk árið 2010.

Leiðbeinendur
Þóra Ellen Þórhallsdóttir
Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Fjármögnun: Styrkt af Umhverfis og Orkusjóði OR

Kynningar:

Katrín Sóley Bjarnadóttir , Sannprófun á skilyrðum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmda á árunum 2000-2006, Meistararitgerð í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands,  2010

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, Sannprófun á skilyrðum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis 2000-2006
Málþing Skipulagsstofnunar, 24.október 2008.

Katrín Sóley Bjarnadóttir, Sannprófun á skilyrðum Skipulagsstofnunar og umhverfisráðuneytis 2000-2006
Málþing á vegum Vegagerðar Íslands 2010

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is