Rafvæðing samgangna á landi

Rafvæðing bílaflota Íslendinga gæti minnkað útstreymi gróðurhúsalofttegunda um meira en 20% og gert landið að miklu leyti óháð innflutningi jarðefnaeldsneytis til samgangna á landi. Rafvæðing bílaflotans getur reynst þjóðhagslega hagkvæm og gert Ísland að fyrirmynd annarra þjóða í því að innleiða vistvænar samgöngur. Með innleiðingu hitaveitu hér á landi á síðustu öld var stigið álíka skref, sem krafðist kerfisbreytingar með tilheyrandi stofnkostnaði. Ráðamenn á þeim tíma sýndu mikið áræði og framsýni, sem enginn efast um í dag að var rétt.

Forsenda slíkra ákvarðana er þekking. Á undanförnum árum og áratugum hefur töluvert undirbúningsstarf  verið unnið hér á landi til að kanna fýsileika þess að innleiða rafknúnar samgöngur. Við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík er verið að kanna fýsileika og leiðir til að rafvæða bílaflotann á Íslandi. Einnig verða lagðar fram tillögur til stjórnvalda um hvernig stuðla megi að slíkri þróun á sem skilvirkastan hátt.  Verkefnin eru m.a. styrkt af Orkuveitu Reykjavíkur og Orkusjóði. Þótt hér sé um tvö verkefni að ræða, hafa forráðamenn þeirra ákveðið að sameina kraftana og skipuleggja vinnuna þannig að fjármagnið nýtist sem best.

Markmið rannsóknanna er
Að gefa skýra mynd af mismunandi möguleikum á rafvæðingu bílaflotans og áhrifum þeirra á umhverfi og þjóðarhag.

Að gefa skýra mynd af áhrifum mismunandi útfærslu rafvæðingar bílaflotans á orkukerfin og hvaða úrbóta er þörf í hverju tilviki.
Að gefa skýra mynd af þeim hvötum sem stjórnvöld geta beitt til þess að stuðla að rafvæðingu bílaflotans, sé það talið fýsilegur kostur, og þjóðhagslegum áhrifum þeirra.

Samstarfsaðilar
Að rannsóknunum stendur þverfræðilegt teymi sérfræðinga frá Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Orkustofnun:

 • Dr. Páll Jensson prófessor í iðnaðarverkfræði við HÍ og sérfræðingur á sviði aðgerðarannsókna
 • Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í hagfræði og líffræði við HÍ og sérfræðingur á sviði kvikra kerfislíkana (Systems Dynamics).
 • Dr. Helgi Þór Ingason dósent í verkfræði við HÍ, sem er að smíða rafbíl til tilraunaksturs 
 • Dr. Guðrún Pétursdóttir framkvæmdastjóri Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun og þverfræðilegar rannsóknir
 • Dr. Hlynur Stefánsson, sviðsstjóri og lektor við HR og sérfræðingur á sviði aðgerðarannsókna
 • Dr. Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, lektor við HR og sérfræðingur á sviði aðgerðarannsókna
 • Dr. William Scott Harvey, lektor í verkfræði við HR og sérfræðingur í orkumálum og rafbílum 
 • Dr. Marco Raberto, lektor í verkfræði við HR og sérfræðingur í fjármálaverkfræði 
 • Dr. Þorkell Helgason fyrrum Orkumálastjóri
 • Ágústa Steinunn Loftsdóttir MSc eðlisfræðingur og sérfræðingur á Vettvangi um vistvænt eldsneyti hjá Orkustofnun 
 • Sigurður Ingi Friðleifsson MSc umhverfisfræðingur og framkvæmdastjóri Orkuseturs Orkustofnunar
 • Dr. Magni Pálsson dósent í raforkuverkfræði við H.Í. og verkfræðingur hjá Landsvirkjun

Hér verður gerð grein fyrir því verkefni sem unnið er að á vegum Stofnunar Sæmundar fróða og kallast Rafakstur.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is