Orka úr úrgangi. Leiðir til að nýta skólp til eldsneytisframleiðslu

Þórður Ingi Guðmundsson vann meistaraverkefni sitt í Umhverfis- og auðlindafræði í samvinnu við Metan h.f.

Leiðbeinendur hans voru Rúnar Unnþórsson og  Páll Jensson.

Þórður Ingi varði ritgerð sína í október 2012.

 

Úrdráttur:

Lögum samkvæmt er skylt að nýta skólp á Íslandi
sé þess einhver kostur en eins og sakir standa er það ekki gert og rennur skólp
frá höfuðborgarsvæðinu í gegnum tvær hreinsistöðvar Orkuveitu Reykjavíkur og
þaðan til sjávar. Í þessari ritgerð verður leitað leiða til að nýta skólp á
höfuðborgarsvæðinu og kannað hvað slíkt myndi kosta. Nokkrar leiðir eru færar í
nýtingu skólps en hér verður fyrst og fremst horft til metanframleiðslu með
súrefnissnauðu niðurbroti og framleiðslu vetnis með gösun. Hér verður tekið
saman magn nýtanlegra efna í skólpi, hve mikið metan eða vetni væri hægt að
framleiða úr þeim og kostnaður við nýtingu þeirra ásamt endurgreiðslutíma og
arðsemi. Þá verður flæði um fráveitukerfi Orkuveitu Reykjavíkur greint með
aðhvarfsgreiningu í hitaveituvatn, vatn til almennra nota og úrkomu. Út frá
þeim niðurstöðum er sett saman líkan sem spáir fyrir um fráveiturennsli í
þéttbýli með hitaveitu út frá veðurfari. Miðað við magn lífrænna efna í skólpi
er hægt að framleiða um 1.200.000 Nm3 metans úr seyru eingöngu og um 3.000.000
Nm3 metans sé notast við íblöndunarefni, nánar tiltekið fitu úr fituskiljum
fráveitustöðva og lífrænan heimilisúrgang á höfuðborgarsvæðinu.
Fjárfestingarkostnaður í slíku lífgasveri er á bilinu 0,8 – 2 milljarðar króna
eftir því hvort notast er við íblöndun eða ekki og borgar sig upp á 12 – 40
árum miðað við 6% vexti. Fræðilega mætti ná um 730 tonnum af vetni árlega úr
skólpi á höfuðborgarsvæðinu með gösun. Hafa skal í huga að hér er um
frumathugun að ræða og nokkur óvissa því til staðar í útreikningum, ekki síst
við mat á gösun skólps.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is