Háspennulínur og sjónmengun

Greiðsluvilji vegna sjónrænna áhrifa háspennulína

Umræða um sjónræn áhrif háspennulína hefur verið áberandi á Íslandi undanfarin misseri og þrýstings gætt um að leggja beri jarðstrengi í stað loftlína. Margs er að gæta í þessum efnum. Tæknilegir eiginleikar þessara tveggja flutningsmáta eru ólíkir og beinn kostnaður við lagningu og rekstur jarðstrengs er mun hærri. Reikna má út beinan kostnað sem fylgir því að leggja jarðstrengi og háspennulínur. Hins vegar er erfiðara að meta kostnað vegna sjónrænna áhrifa þessara dreifileiða, sem segja má að falli á samfélagið og hefur til þessa ekki verið tekinn með í reikninginn þegar fjallað er um kostnað við slík mannvirki.

Tilgangur þessarar rannsóknar er að meta jaðarkostnað samfélagsins vegna sjónrænna áhrifa háspennulína og mastra og var beitt aðferðum skilyrts verðmætamats. Í rannsókninni var kannaður greiðsluvilji almennings vegna sjónrænna  áhrifa ákveðins kafla Búrfellslínu 2.

Rannsóknarsvæðinu var skipt í þrennt, svæði A uppi á Hellisheiði, svæði B við Hveragerði og svæði C við Gljúfurárholt. Teknar voru myndir af köflum línunnar og síðan voru línurnar og háspennumöstrin máð í burtu með myndvinnslu. Þannig voru búnar til tvær útgáfur mynda, annars vegar með og hins vegar án mastra og lína. Þátttakendur voru spurðir hvort þeir teldu heimili sitt vera  tilbúið til að greiða hærri rafmagnsreikning til að sleppa við að sjá þessar línur og möstur.

Úrtak 240 einstaklinga var valið af handahófi úr þjóðskrá, og skiptist það jafnt milli íbúa Reykjavíkur,  Selfoss og Hveragerðis. Viðtöl fóru fram frá apríl til júlí 2009 og tóku 52,5% úrtaksins þátt.

Meðalgreiðsluvilji  á rannsóknarsvæðinu öllu reyndist vera 8.100 kr. á ári. Hvergerðingar eru tilbúnir til að greiða mest, 11.500 kr. á ári. Greiðsluvilji fyrir svæðið við Hveragerði er hæst, en lægst fyrir svæðið á Hellisheiði.

Línuleg aðhvarfsgreining bendir ekki til þess að marktækt samband sé milli tekna og greiðsluvilja miðað við 95% marktækni. Hins vegar er marktækt samband milli atvinnuþátttöku og greiðsluvilja, sem styrkir niðurstöður rannsóknarinnar. Búseta hefur einnig marktæk áhrif á greiðsluvilja.

Niðurstöðurnar benda til að sjónræn áhrif háspennulína skipti almenning nokkru máli. Þar sem sjónræn áhrif voru einangruð í þessari rannsókn, og ekki fjallað til dæmis um önnur umhverfisáhrif ,  verður ekki fullyrt að jarðstrengir séu sú lausn sem þátttakendur kjósa í staðinn. Rannsóknina má telja mikilvægt skref í átt að því að meta jaðarkostnað almennings vegna sjónrænna áhrifa háspennulína og opnar á mikla möguleika til frekari rannsókna.

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir vann rannsóknina sem lokaverkefni til meistaraprófs í Umhverfis- og auðlindafræðum, sem hún lauk í júní 2010.

Leiðbeinendur:
Dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í hagfræði og forstöðumaður meistaranáms í Umhverfis- og auðlindafræðum
Dr. Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur við Hagfræðistofnun

Kynningar:

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Greiðsluvilji vegna sjónrænna áhrifa háspennulína, Meistararitgerð í Umhverfis- og auðlindafræðum, Háskóli Íslands, 2010.

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Sigurður Jóhannesson og Guðrún Pétursdóttir
Willingness to pay for  reduced visual impact of overhead power lines.
High Voltage Energy Transmission and the Visual Environment
Reykjavík 16 - 17th September 2010

Anna Sigurveig Ragnarsdóttir, Brynhildur Davíðsdóttir, Sigurður Jóhannesson og Guðrún Pétursdóttir
Willingness to pay for  reduced visual impact of overhead power lines.
Þjóðarspegill um rannsóknir á sviði félagsvísinda við Háskóla Íslands
29.október 2010

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is