Loftgæði og lýðheilsa á Íslandi - nýtt rit kynnt

Stýrihópur, sem skipaður var í ágúst 2010,  skilaði þann 16. apríl 2013 þeim  Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra og Svandísi Svavarsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra, riti sem inniheldur úttekt á loftgæðum og lýðheilsu  hér á landi.

Dr. Guðrún Pétursdóttir á sæti í þessum átta manna hópi. Þetta er fyrsta úttekt á þessum þáttum hér á landi og fjallar hópurinn um fjölmarga þætti sem máli skipta fyrir gæði lofts innanhúss og utan. Einnig setur hópurinn fram tillögur til úrbóta á fjölmörgum sviðum.

Loftmengun er fylgifiskur aukins mannfjölda og þéttbýlismyndunar á
jörðinni og er hættuleg heilsu og lífsgæðum, einkum þeirra sem þjást af
sjúkdómum í öndunarfærum eða hjarta og æðum. Loftmengun dregur úr
lífslíkum manna og eru börn sérstaklega viðkvæm, því mengað loft getur
valdið öndunarfærasjúkdómum hjá börnum og haft varanleg áhrif á
lungnaþroska þeirra.

Í ritinu, sem ber heitið Hreint loft – betri heilsa, er fjallað
um helstu mengunarvalda lofts bæði inni og úti á Íslandi, magn þeirra,
áhrif þeirra á heilsu, vöktun og aðgerðir til að stemma stigu við
skaðsemi þeirra. Einnig eru settar fram tillögur til úrbóta og mælt með
umhverfis- og heilsuvísum sem nota má til að fylgjast með loftmengun af
ýmsu tagi og áhrifum hennar á heilsu. Þetta er fyrsta heildarúttekt á
loftgæðum á Íslandi og hafa höfundar lagt áherslu á að safna öllum
tiltækum upplýsingum þar að lútandi. Gerð er m.a. grein fyrir uppruna,
eiginleikum og áhrifum loftborinna efna á heilsu. Rakin eru ákvæði laga
og reglugerða og alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að. Þar sem
niðurstöður mælinga liggja fyrir eru þær bornar saman við
heilsuverndarmörk eða önnur viðmið.

Heilbrigðisráðherra skipaði stýrihópinn árið 2010 en starfið var undir formennsku umhverfis-
og auðlindaráðuneytis. Auk fulltrúa ráðuneytanna tveggja sátu í
stýrihópnum fulltrúar Embættis landlæknis, Heilbrigðiseftirlits
Reykjavíkur, Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands, SÍBS og
Umhverfisstofnunar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is